Lingua   

Verkamaður

Steinn Steinarr
Lingua: IslandeseHann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Hann vann á eyrinni alla daga,
þegar einhverja vinnu var hægt að fá,
en konan sat heima að stoppa og staga
og stugga krökkunum til og frá.

Svo varð það eitt sinn þann óra tíma,
að enga vinnu var hægt að fá.
Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma
við hungurvofuna, til og frá.
Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum,
og auðvaldsins harðstjórum reistu þeir níð.
Og loksins kom að því þeir börðust í bænum,
um brauð handa sveltandi verkalýð.

Þann dag var hans ævi á enda runnin
og enginn veit meira um það.
Með brotinn hausinn og blóð um munninn,
og brjóst hans var sært á einum stað.
Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum,
í fylkinguna sást hvergi skarð.
Að stríðinu búnu, á börum einum,
þeir báru hans lík upp í kirkjugarð.

Og hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Engin frægðarsól eða sigurbogi
er samantengdur við minning hans.
En þeir segja, að rauðir logar logi
á leiði hins fátæka verkamanns.


Pagina principale CCG

Segnalate eventuali errori nei testi o nei commenti a antiwarsongs@gmail.com
hosted by inventati.org